Færsluflokkur: Bloggar

21:oo -22:oo

titrandi tifið
klukkan
með alla sína
sögu
sligast áfram
skrefin þyngjast
sekúndan
lengri
og lengri
stöðvast aldrei
og fer aldrei
tilbaka
tifandi
tíminn
taumlaus
og lifandi
hvað sem
tautar
og raular

Ég slappa aðeins meira á eftir daginn!


2o:oo -21:oo

tilfinningakalin
á útlimum lífsins
ofsafengin viðbrögð
líkamans
við að vakna
til vitsmuna
sjá um leið
laufin falla
og
vindinn rífast
við lognið
kakkalakkalausn
á rísandi vanda
fönix
í sál og anda
uppgjöf
er ekki orð
heldur
athöfn
sem ég
afneita

Ég slaka á og undirbý morgundaginn!


19:oo - 2o:oo

Afvelta
í sófanum
ofgnótt af öllu
vitundin veit
af heppninni
ég á fortíð
og samtíð
og meira segja
framtíð
drauma og óskir
leidd áfram
um lystigarð drottins í
með virðingu
að leiðarljósi
tímar sem þessi
sem
segja mér satt
um af hverju
ég
er hver ég er

Ég slappa af eftir daginn!


18:oo - 19:oo

legg á borð
fyrir mig
þig og lífið
næri sálina
eldsneyti framtíðar
hvað er það
sem við í raun
viljum
hvað er það
sem við eigum að vilja
þokukenndar
hugsanir
berjast í bakka
við venjulegheit
ljósbirting
í hjartanu
segir mér
að lífið er
eitt
og aðeins eitt
svo ég slaka bara á
og fylli lungun
af framtíðinni

Ég borða kvöldmat!


17:oo - 18:oo

breytileg orka
mannverunnar
hagræðir sér
blóðstorkið stressið
innbyggt
í mig
og þig
glaumur af hraða
óskammfeilin efnishyggja
rökkurstund
daglegs lífs
andvarp
og áframhald
óvæntar væntingar
um truflunarlausa
drauma
kannski...
reynist viska
reynslunnar
trú

Ég kem heim!


16:oo -17:oo

anda inn
anda út
ég hlusta á mig
anda
finn hjartað slá
af ást
til lífsins
geng
ég tala
er til
og
snerti þig
finn bragð
af lífsins biturleik
salt bragð sorgar
og sætt bragð
hamingju og gleði
finn þrá í að vera ég
sátt
við það sem er

Ég vesenast!


15:oo-16:oo

svo létt
svo fagurt
svo undurblítt
knappur rósar
blómstrar
barn
kraftaverk lífs
í lifandi mynd
áfram, áfram
hring eftir hring
þróun
sem aldrei hættir
maðurinn
konan
það erum við eitt
með tilganginn einan
áframhaldandi
andadráttur
okkar

Ég er búin að vinna!


14:oo - 15:oo

það vitjar mín
orð
um frelsið
óskrifað hugarorð
en frelsið
er eign ekki neins
í hvergimannslandi
en öll
við eigum það
Ég þarf að stökkva
fljúga
og sleppa
finna frelsið strjúka mér
og slá mig
ég á það
þarf að finna það
sleppa mér
dyrnar opnast
úr hvergimannslandi
og heim
í hjartað mitt

Ég held áfram að vinna!


13:oo -14:oo

því meira sem ég reyni
því tómari
er spegillinn
ég sé það sem
ég er
en ég veit ekki
hver það er
sem starir á móti
blekstorknuð orðin
sitja og bíða
og bíða
flögrandi tónadansinn
smýgur inn
að beini
gleðin heldur fast um mig
ég veit af henni
hlýtt
og gott
að týna sér
við fótskör sjálfsins

Ég fer aftur í vinnuna!


12:oo - 13:oo

augnablikið
kemur að því hjá öllum
að hætta öllu
bara til að nærast
vitundin þarf visku
sálin þarf ljós
líkaminn þarf eldsneyti
í voluðum heimi
eiga sumir
ekki neitt
í sundruðum heimi
eiga sumir
ekki neitt
en við eigum allt
en kvörtum samt
siðferðisleg skylda okkar
að vera sátt
lifum í vellystingum
í frjálsu landi
en kvörtum samt
léttúð og sjálfsánægja
flýtur undir ímynduðum vandamálum
við kvörtum samt

Ég fær mér hádegismat!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband